Hundurinn Sámur
Sámur litli er af Nýfundnalandskyni. Ég segi "litli"
þótt hann sé nú þegar orðinn rúmlega
18 kíló að þyngd, aðeins 14 vikna gamall.
Hann á hins vegar eftir að stækka mjög mikið
og þegar hann er orðinn fullvaxinn má búast
við að hann vegi um það bil 65 kíló
og verði vel yfir 70 sentimetra á hæð miðað
við herðakamb.
Newfoundland-hundurinn
Newfoundland-hundurinn er yfirleitt svartur á lit og oft með
hvíta bletti á bringu og á löppum. Til er
sérstakt afbrigði sem nefnist Landseer eftir hinum þekkra
málara, Sir
Edwin Landseer, en hann hafði mikið dálæti
á þessari hundategund og eftir hann liggja mörg fræg
málverk af Newfoundland-hundum. Landseer-hundar eru að mestu
leyti hvítir en með svarta bletti. Í sumum löndum
eru þeir taldir vera sérstakt hundakyn en víðast
hvar teljast þeir vera afbrigði af Newfoundland. [The Complete
Newfoundland, bls. 38]
Það eru skiptar skoðanir á því hvaðan
Newfoundland-hundurinn muni vera upprunninn. Segja sumir að hann
eigi ættir að rekja til Evrópu og jafnvel er þeirri
skoðun haldið fram að forfeður okkar, víkingarnir,
hafi, þegar þeir fundu Vínland, haft með sér
stóra hunda sem þeir kölluðu bjarnhundinn [This
is the Newfoundland, bls 20] og sé Newfoundland-hundurinn kominn
af þeim. [You & Your Dog, bls. 78]. Ef þetta er rétt,
mætti kannske hugsa sér að Sámur Gunnars á
Hlíðarenda hafi verið af þessu kyni...
Í bókinni This is the Newfoundland er talið líklegast
að Newfoundland-hundurinn sé afkomandi Tíbetanska
Mastiff-hundsins og að hann hafi komið með víkingum
til Nýfundnalands um eða fyrir árið 1000. Allt
þar til John Cabot "enduruppgötvaði" Newfoundland-hundinn
árið 1497 voru þessir hundar einangraðir og þróuðust
í það að verða sérstök tegund.
Á þessu 500 ára tímabili hafa að minnsta
kosti 100 ættliðir getað aukið kyn sitt. [This is
the Newfoundland, bls 21]. Í öðrum heimildum er hermt
að franskir sjómenn hafi haft með sér svonefnda
Pyrenea fjallahunda sem svo hafi blandast við hunda sem fyrir voru
á Nýfundnalandi [The Dog, bls. 81]. Eitt er víst,
en það er að Newfoundland-hundurinn er afar líkur
Pyrenea-hundinum í útliti. Margaret Booth Chern, höfundur
bókarinnar The Complete Newfoundland, er talin einn mesti sérfræðingur
um þetta hundakyn. Hún ræktaði um langt árabil
ásamt manni sínum, Vadim Chern, Newfoundland-hunda og
meira en 100 hundar frá búgarði þeirra hjóna,
Little Bear Kennels, hafa hafa hlotið fyrstu verðlaun á
sýningum. Hefur Margaret Chern hlotið mikið lof fyrir
vönduð vinnubrögð og fræðimennsku í
umfjöllun um þessa hundategund. Hún heldur því
mjög ákveðið fram að Newfoundland-hundurinn
sé upprunnin í Ameríku og hafi Algonquin- og Sioux-indíánar
orðir fyrstir til að að temja hunda af þessari tegund.
Heitið "Newfoundland" hafi tegundin svo hlotið hjá fyrstu
bresku landnámsmönnunum sem komu til Nýfundnalands.
Þessir stóru svörtu hundar hafi verið algengir
hjá indíánum allt frá austurströnd
Ameríku vestur að Montana og frá Saskatchewan í
norðri suður til Mexikó-flóa [The Complete Newfoundland,
bls. 31]. Hjá Algonquin- og Sioux-indíánunum var
Newfoundland-hundurinn fyrst og fremst notaður við veiðar
og til þess að draga þung hlöss. Apache-indíánar
héldu einnig þessa stóru hunda og létu þá
bera eða draga farangur sinn þegar þeir fluttu búferlum.
Newfoundland-hundurinn hefur ætíð verið vinnuhundur
og áður fyrr höfðu sjómenn á Nýfundnalandi
og við norðausturströnd Ameríku slíka hunda
með sér á skipum sínum m.a. til þess
að láta þá hjálpa til við að
ná inn fiskinetum og finna land. [The Complete Newfoundland,
bls. 195]. Það er til marks um það hve sterkir þessir
hundar geta orðið að í bókinni Guinness Book
of World Records er getið um heimsmet í sleðadrætti
en það setti Newfoundland-hundurinn Great Khan árið
1973. Hann dró 4300 punda þungan sleða en það
eru nærri tvö tonn!
Labrador Retriever er náskyldur Newfoundland-hundinum og er afkomandi
hans. Þrátt fyrir heitið Labrador er talið víst
að þessi hundategund sé upprunninn nærri St.
Johns á Nýfundnalandi. Skyldleikinn er augljós
bæði hvað varðar skaplyndi og ýmsa þætti
í líkamsbyggingu. Áður fyrr var Labrador Retriever
hundurinn kallaður "Lesser Newfoundland", þ.e. minni Nýfundnalandshundurinn
[This is the Newfoundland, bls 20].
Newfoundland-hundurinn er gæddur afar miklum sundhæfileikum
og hann getur vart án þess verið að komast í
vatn eða sjó. Öll líkamsbygging hans er vel til
sunds fallin, feldurinn er þykkur og þéttur og hrindir
vel frá sér vatni, hundurinn er með sundfit og kraftmiklir
vöðvarnir gera honum kleift að synda hratt og langtímum
saman jafnvel í ísköldum sjó. Til eru ótal
margar sögur af björgunarafrekum Newfoundland-hunda og hefur
margur sjómaðurinn átt líf sitt að launa
hundi af þessari tegund. Þess má til gamans geta
að Newfoundland-hundur breytti gangi mannkynssögunnar þegar
hann kom Napóleon til bjargar og forðaði honum frá
drukknun við eyjuna Elbu. Keisarinn var að snúa aftur
úr útlegð og féll í sjóinn í
niðamyrkri þegar hann var að reyna að komast um borð
í bát sem átti að flytja hann til meginlandsins.
Gríðarlega stór Newfoundland-hundur sem einn sjómannanna
átti, stökk út í á eftir Napóleon
og dró hann að bátnum en keisarinn var ekki syndur.
Hefði hvutti ekki látið til sín taka hefði
ekkert orðið af endurkomu Napóleons til Parísar
árið 1815 þar sem hann settist á ný í
hásætið og tókst að halda völdum í
hundrað daga. Hin mikla orrusta við Waterloo hefði því
aldrei átt sér stað nema fyrir tilstuðlan Newfoundland-hundsins
sem þarna náði í hálsmálið
á keisaranum. [The Complete Newfoundland, bls. 135].
Skapgerð Newfoundland-hundsins einkennist af rólyndi, góðvild
og virðuleika. Þessir hundar eru einstaklega barngóðir
og eru gæddir mikilli ábyrgðartilfinningu. Þeim
er því treystandi til að gæta smárra skjólstæðinga
vel og vandlega og margar frásagnir eru til um það
hvernig þeir hafa verndað lítil börn, bjargað
þeim frá drukknun, varið þau fyrir árásum
annarra dýra og með ýmsu móti komið í
veg fyrir að þau færu sér að voða. [The
Complete Newfoundland, bls. 223].
Einn frægasti Newfoundland-hundur sem uppi hefur verið er
Boatswain sem var í eigu hins mikla skálds, Byron lávarðar.
Skáldinu þótti svo vænt um Boatswain að
hann mælti svo fyrir í erfðaskrá sinni að
hann yrði grafinn hjá hundi sínum. Grafskrift sú
er Byron lét rista í stall við gröf Boatswain
segir meira en nokkur önnur orð:
NEAR THIS SPOT
ARE DEPOSITED THE REMAINS OF ONE
WHO POSSESSED BEAUTY WITHOUT VANITY
STRENGTH WITHOUT INSOLENCE
COURAGE WITHOUT FEROCITY
AND ALL THE VIRTUES OF MAN WITHOUT HIS VICES
THIS PRAISE WHICH WOULD BE
UNMEANING FLATTERY
IF INSCRIBED OVER HUMAN ASHES
IS BUT A JUST TRIBUTE TO THE MEMORY OF
BOATSWAIN, A DOG
WHO WAS BORN AT NEWFOUNDLAND, MAY 1803,
AND DIED AT NEWSTEAD ABBEY,
NOVEMBER 18, 1808.
_hér í nánd
eru geymdar jarðneskar leifar þess
er bjó yfir hégómalausri fegurð
styrk án hroka
hugprýði án nokkurrar grimmdar
og öllum dyggðum mannsins en án mannlegra bresta
þessi vegsömun sem væri
innihaldslaust smjaður
ef hún stæði yfir mannlegri ösku
er ekki nema réttmætt lof í minningu
Boatswain, hunds
sem fæddist á Nýfundnalandi í maí
1803,
og dó að Newstead Abbey
hinn 18 nóvember, 1808.
Sámur litli hefur þegar
sýnt, þótt ungur sé, að hann hefur til
að bera mikinn "karakter". Hann er ansi sjálfstæður
og vill fara sínu fram þegar því er að
skipta og á það til að móðgast ef honum
finnst sér vera misboðið. Hann þykist stundum vera
dálítill "töffari" en fer nú samt strax að
skæla ef hann heldur að hann hafi verið yfirgefinn. Það
er afar skemmtilegt að fylgjast með því hvernig
hann er smátt og smátt að læra nýja hluti.
Á hverjum einasta degi uppgötvar hann eitthvað nýtt
og það leynir sér ekki hve mikla ánægju
það veitir honum. Einn daginn komst hann að því
að það er hægt að standa á afturfótunum
og teygja framlappirnar upp í sófa eða stól.
Þetta var svo merkilegt að nánast allur sá dagur
fór í það að kanna umhverfið frá
þessum nýja sjónarhól. Fyrir örfáum
dögum var eins og trýnið væri allt í einu
sett í samband. Sámur gekk um öll gólf með
trýnið beint upp í loftið og þefaði
í allar áttir og hið sama gerðist þegar
hann var úti þennan dag. Hann er nýlega búinn
að ná valdi á því að hrista sig án
þess að detta og smám saman er hann ná tökum
á því að klóra sér bak við
eyrað með afturlöppinni án þess að sparka
í trýnið á sér.
Framfarirnar eru órtrúlega miklar og það er
enginn vafi á því að mestu máli skiptir
að hann á daglega samneyti við níu ára
gamlan Labrador-hund sem sonur minn á. Gosi, en svo heitir Labbinn,
hefur tekið Sámi svo vel að það er hreint með
ólíkindum. Hann tekur að vísu rétt aðeins
í lurginn á hvolpinum þegar honum þykja fíflalætin
hafa gengið einum of langt en hann er einstaklega varfærinn
þegar þeir leika sér saman og gætir þess
vel að meiða ekki þann stutta. Sámur fylgist grannt
með Gosa og reynir að líkja eftir öllu sem hann
gerir. Það er áberandi hvað hann er fljótur
að tileinka sér ýmislegt sem Labradorinn hefur fyrir
honum og það er augljóst að Gosi er mun betri kennari
fyrir Sám en ég.
Nú eru rétt rúmar tvær vikur liðnar frá
því að ég fékk Sám. Á þessum
stutta tíma hefur hann þyngst um heil tvö kíló
og við sjálft liggur að maður sjái hann vaxa.
Ekki er ég í nokkrum vafa um að með Sámi
hef ég eignast góðan vin sem á eftir að
veita mér mikla ánægju um ókomna tíð.
Ég vona bara að ég geti á móti reynst
honum sá vinur sem hann á skilið og að hann eigi
eftir að eiga hamingjusama ævi.
Heimildir:
1) Margaret Booth Chern: The Complete
Newfoundland, Second Edition. Howell Book House Inc., New York,
1988.
2) David Taylor: You & Your Dog. Dorling Kindersley Limited,
London, 1986.
3) David Alderton: The Dog, The Complete Guide to Dogs and their
World. Crescent books, 1991.
4) This is the Newfoundland, Second Edition. Official Publication
of the Newfoundland Club of America. T.F.H. Publications, Neptune
City, 1978.